news

Bangsa og náttfatadagur

30. 10. 2019

Alþjóðlegi bangsadagurinn var sunnudaginn 27. október á fæðingardegi Theodore (Teddy) Roosevelt, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, en dagurinn er haldinn hátíðlega víða um heim. Sagan á bak við bangsadaginn er að eitt sinn þegar Roosevelt, sem var mikill skotveiðimaður, hafi verið á veiðum hafi hann vorkennt litlum varnarlausum bjarnarhúni og sleppt honum.

Búðareigandi í Brooklyn, New York varð hugfanginn af þessari sögu og bjó til leikfangabangsa sem hann kallaði Teddy eða Teddy Bear. Þessi leikfangabangsi hefur verið vinsæll leikfélagi barna um allan heim síðan og er hann í aðalhlutverki á þessum degi.

Á Holtakoti er löngu orðin hefð fyrir því að halda upp á þennan dag með því að bjóða upp á náttfata- og bangsadag. Þá mæta allir sem vilja, bæði börn og starfsfólk í náttfötunum í leikskólann með uppáhalds bangsann sinn með sér. Að þessu sinni var bangsadagurinn tekinn snemma, eða fimmtudaginn 24. október, þar sem að aðal dagurinn lenti á sunnudegi og skipulagsdagur var á föstudeginum.

Flestir áttu frekar kósý-dag innan dyra þar sem að veðrið var ekki beint upp á marga fiska, kalt var í veðri og vindasamt. Börnin á Tröð fóru eftir hádegi í salinn með bangsana sína þar sem var dansað og skemmt sér fram að nónhressingu og börnin á Hliði fóru í salinn eftir nónhressingu þar sem þau dönsuðu stopp-dans og fleira skemmtilegt með böngsunum.

Yngri börnin á Seylu og Mýri hittust inni á Seylu í vinastund um morguninn og sungu saman nokkur vel valin lög og áttu svo kósý-dag inni í leik með bangsana sína.

© 2016 - 2019 Karellen