news

Litlir fætur á ferð og flugi

07. 08. 2019

Í morgun, miðvikudaginn 7. ágúst, fóru allir í vettvangsferð út úr húsi, en þó ekki allir á sömu slóðir.

Yngri börnin á Seylu og Mýri skelltu sér í gönguferð og kíktu á leikvöll rétt við Bjarnastaði í þessu líka blíðskaparveðri.

Nýbúið er að taka nokkra leikvelli í gegn á Álftanesinu og því mjög spennandi að skoða þá og fá að leika sér í leiktækjum sem ekki eru á leikskólalóðinni okkar.

Börnunum þótti þetta heldur betur spennandi og ríkti mikil kátína og gleði í hópnum. Litlu göngugarparnir eru orðin þaulvön í gönguferðum og stóðu sig að sjálfsögðu mjög vel í göngunni.

Eftir góða útiveru fram að hádegi fengu börnin skyr og nýbakað kryddbrauð í hádegismatinn áður en þau lögðust inn í hvíldina.


Börnin á Hliði og Tröð fóru örlítið lengra en þau yngri, en þau fóru í strætóferð til Hafnarfjarðar. Þau komu við í Hellisgerði og miðbæ Hafnarfjarðar og skoðuðu sig um þar áður en þau héldu sem leið lá á Víðistaðatúnið.

Þar fóru þau í skoðunarferð, hoppuðu á ærslabelgnum, fóru í aparóluna, klifruðu og grilluðu pylsur í hádegismatinn. Allir komu svo til baka með strætó rétt fyrir kl. 14.30, sumir þreyttari en aðrir og náðu sér í smá kríu í strætóferðinni. Ferðin gekk mjög vel og voru allir kátir og glaðir eftir ferðina og þegar heim var komið fengu þau nýbakaða möndluköku, hrökkbrauð, ávexti og mjólk að drekka.

© 2016 - 2020 Karellen