news

Náttföt og vasaljós á nýju ári

03. 01. 2020

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla! Vonandi hafa allir átt notalegt jólafrí og getað notið þess að vera saman. Á Holtakoti tökum við vel á móti nýja árinu. Við byrjuðum daginn í gær í rólegheitum og í dag var svo náttfata og vasaljósadagur eins og hefð hefur skapast fyrir í byrjun janúar áður en sólin fer að hækka á lofti.

Börnin mættu í leikskólann með vasaljós og í náttfötum og áttu ýmist kósýdag innandyra þennan morguninn í leik með vasaljósin í myrkrinu eða eins og á annarri eldri deildinni var farið út í gönguferð í myrkrinu með vasaljósin.

Í næstu viku hefst svo hefðbundið vetrarstarf aftur eftir jólafríið. Á mánudag ætlum við að byrja daginn á því að hittast í salnum í Þrettánda-söngstund og kveðja jólin áður en við höldum inn í daginn. Hildur fer aftur afstað með hreyfingu í salnum, skólahópurinn fer að fara aftur í sundkennsluna, Hlið og Tröð fara aftur að fara í Ásgarð, íþróttahúsið og útkennslu. Leikur að læra hefst aftur með foreldraverkefninu á þriðjudögum og fimmtudögum, Lubbi mætir með málhljóðin og Blær kennir okkur um vináttu og umhyggju ásamt öllu hinu hefðbundna eins og útiveru, skólahópsverkefni og heimsóknir og fleira skemmtilegt.

© 2016 - 2020 Karellen