news

Opið hús og rauður dagur

28. 11. 2019


Fimmtudaginn 28. nóvember var foreldrum og öðrum aðstandendum boðið að koma á opið hús og rauðan dag á Holtakoti. Dagurinn byrjaði á því að börnin á Tröð og Hliði sýndu Helgileikinn sem þau eru búin að vera að æfa síðustu vikur. Hljómsveitin Lærisveinar Hans sáu um undirspil undir á sýningunni. Börnin stóðu sig vel að vanda og heilluðu áhorfendur upp úr skónum, enda fátt fallegra en syngjandi börn! Þau koma svo til með að vera með aðra sýningu fyrir heimilisfólkið á Ísafold í Garðabæ í næstu viku og mun hljómsveitin taka þátt í þeirri sýningu líka.

Eftir sýninguna var gestum boðið upp á rjúkandi kaffi, heitt súkkulaði með rjóma, heimabakaðar smákökur og kryddbrauð með smjöri og osti inni á deildum barnanna. Börn og starfsfólk hefur unnið hörðum höndum síðustu vikur við að undirbúa fyrir opna húsið t.d. með jólaföndri sem var hengt upp á veggi deildanna og gerkarlabakstri. Einnig hefur skapast sú hefð að börnin búa til aðventuljós sem þau gefa foreldrum sínum þegar þau koma á opið hús. Starfsfólkið sá svo um að skella leikskólanum í jólabúninginn með því að setja upp jólaskraut og seríur, mála glugga leikskólans með alls konar jólafígúrum og myndum, taka til og gera fínt.

Hljómsveitin hélt áfram að spila í salnum á meðan á opna húsinu stóð og þegar gestrirnir voru farnir að týnast úr húsi fóru börnin í salinn dönsuðu og skemmtu sér. Vel var mætt á opna húsið að vanda og þökkum við öllum þeim sem sáu sér fært að koma til okkar kærlega fyrir komuna.


© 2016 - 2020 Karellen