news

Síðasti starfsdagur vetrarins

03. 06. 2019

Föstudaginn 31. maí var síðasti skipulagsdagur vetrarins og endirinn á formlegu vetrarstarfi hjá bæði starfsfólki og börnum. Starfsfólk leikskólans hefur undanfarnar vikur unnið hörðum höndum að undirbúningi fyrir opið hús og endurmati á skólastarfinu í vetur. Því var ákveðið í sameiningu af starfsfólki að gera sér glaðan dag, ferðast aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið og kynna sér stefnur og strauma í öðru sveitafélagi.

Haldið var upp í rútu og lagt afstað upp úr kl. 8 frá Holtakoti og var ferðinni heitið til Hveragerðis að skoða leikskólann Undraland sem er 6 deilda leikskóli, annar af tveimur leikskólum í Hveragerði. Þar var vel tekið á móti okkur af leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra sem fræddu okkur um það helsta í sambandi við leikskólann. Eftir að hafa fengið að ganga um leikskólann og skoða alla króka og kima, fá okkur kaffi og smá kexbita var haldið aftur upp í rútu á næsta stað. Nú var ferðinni heitið alla leið á Flúðir þar sem við skoðuðum annan leikskóla sem heitir einnig Undraland.

Undraland á Flúðum er 3 deilda leikskóli sem leggur mikla áherslu á Útikennslu m.a. og eftir að hafa fengið fræðslu um það helsta í starfi leikskólans og fengið að skoða allar deildar, útisvæði ofl. fórum við í stutta göngu í skóginn þar sem útikennsla leikskólans fer allra helst fram yfir skólaárið.

Báðir leikskólarnir sem við skoðuðum voru mjög skemmtilegir og ólíkir á margan hátt. Því næst var haldið í Reykholt þar sem allir fengu pizzu á veitingastaðnum Mika. Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var haldið í blómaræktunina Espiflöt þar sem við fengum góðar móttökur og kynningu á svæðinu ásamt fræðslu um það helsta í blómabransanum og flestir gengu út með blómvönd í hendi eftir þessa heimsókn.

Dagurinn endaði svo með heimsókn í Sveitabúðina Sóley sem er staðsett rétt fyrir utan Stokkseyri áður en haldið var afstað aftur í bæinn.

Allir voru sammála um að þetta hefði verið frábær dagur og góður endir á vetrarstarfinu.

© 2016 - 2019 Karellen