news

Útikennslan komin afstað

05. 09. 2019

Miðvikudaginn 4. september fór Hlið í fyrsta útikennslutíma vetrarins og var ferðinni heitið í Hellisgerði í Hafnarfirði.

Börnin borðuðu morgunmat á leikskólanum áður en lagt var afstað með strætó kl. 9.15. Þegar komið var á áfangastað fengu börnin sér bananabita áður en þau gerðu nokkur skemmtileg verkefni og fóru í leiki.

Í vetur verður lögð áhersla á útikennslu innan Leikur Að Læra stefnunnar og að sjálfsögðu verður Leikur Að Læra notað í útikennslunni með eldri börnunum á Hliði og Tröð í vetur.

Stærðfræði varð fyrir valinu í þessari útikennslustund. Byrjað var á að allir hituðu upp saman með latabæjarspjöldum. Börnin unnu svo tvö og tvö saman. Börnin drógu eitt spjald og áttu að hoppa jafn oft á öðrum fæti og spjaldið sagði til um og finna svo jafn marga hluti í náttúrunni og talan sagði til um að því loknu endurtóku þau leikinn og áttu svo að leggja tölurnar saman og sýna kennaranum með fingrunum hversu mikið þetta væri.

Holtakot er Grænfána leikskóli en við erum einmitt að byrja að vinna að verkefni fyrir næsta fána sem við sækjum um haustið 2020 en verkefnið ber nafnið Lífbreytileiki og Hnattrænt jafnrétti. Í Hellisgerði er aldeilis hægt að skoða lífbreytileika náttúrunnar og börnin fengu fræðslu um hinar og þessar gróðurtegundir.

Í hádeginu fengu börnin skyr og flatkökur í Hellisgerði og voru svo komin aftur í leikskólann upp úr kl. 14. Fyrsti útikennslutíminn gekk mjög vel og þótti bæði kennurum og börnum þetta mjög skemmtilegt og hlakka til að takast á við útikennsluverkefnið í vetur.

© 2016 - 2019 Karellen