news

Útskrift elstu barnanna, opið hús og sumarhátíð

27. 05. 2019

Föstudaginn 24. maí var stór stund í lífi elstu barnanna okkar í skólahóp þegar þau voru formlega útskrifuð úr leikskóla við hátíðlega athöfn. Foreldrum og öðrum aðstandendum var boðið að koma og vera viðstödd athöfnina.

Börnin byrjuðu á því að syngja nokkur vel valin lög fyrir áhorfendur og stóðu sig með stakri prýði eins og þeim einum er lagið. Að söngnum loknum fengu þau öll afhent útskriftarskjöl og rauðar rósir og að því loknu var öllum boðið upp á vínber, kleinur, kaffi og djús.


Starfsfólk leikskólans hafði útbúið ljósmyndavegg svo foreldrar gætu tekið mynd af sínu barni með útskriftarskjalið sitt.

Foreldrar útskriftarbarnanna tóku sig saman og gáfu starfsfólki leikskólans veglega ostakörfu sem hafði að geyma ýmis góðgæti ásamt pottaplöntu, ilmkertum og fallegum kaffibollum á kaffistofuna. Við þökkum foreldrum kærlega fyrir okkur.


Strax eftir útskriftina var sumarhátíð Holtakots haldin í leikskólagarðinum. Búið var að setja upp hoppukastala leikskólans en foreldrafélagið bauð upp á risa hoppukastala, sá litli var fyrir yngri börnin og sá stærri fyrir eldri börnin.Leikhópurinn Lotta leit við og sýndi brot úr leikritinu um Rauðhettu, úlfinn og grísina þrjá við mikinn fögnuð áhorfenda. Og eftir sýninguna fengu þeir sem vildu knús hjá leikurunum og mynd af sér með þeim.

Eins og hefð er fyrir á sumarhátíðum var gestum og gangandi boðið upp á grillaðar pylsur með öllu tilheyrandi og ávaxtasafa og stóðu starfsmenn leikskólans vaktina á grillinu.

Gestir hátíðarinnar nutu sín í veðurblíðunni, en veðurguðirnir voru okkur heldur betur hliðhollir þetta árið og fengum við þetta glimrandi góða veður með sól í heiði og gleði í hjarta.

Til þess að setja lokapunktinn á þessum flotta degi afhenti foreldrafélagið Ragnhildi leikskólastjóra gjafabréf upp á 400.000 kr sem leikskólastjóri sér um að ráðstafa í búnaðarkaup og annað sem til fellur í leikskólastarfinu og á svo sannarlega eftir að koma sér vel til þess að bæta aðbúnað og starf leikskólans. Við þökkum foreldrafélaginu kærlega fyrir okkur um leið og við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í þessum degi með okkur.


© 2016 - 2019 Karellen