news

Vetrarstarfið hafið

03. 09. 2019

Nú er september mættur og haustið sömuleiðis. Vetrarstarfið á Holtakoti er formlega hafið með allri sinni gleði. Skólahópsbörnin fóru í fyrsta sundtímann í gær, en sundið verður á mánudögum í vetur. Sæa pæja heldur áfram að sjá um sundkennsluna ásamt Moniku. Sundtíminn gekk mjög vel, en í gær var hópunum skipt upp eftir deildum, s.s. skólahópur á Tröð fór saman og skólahópur á Hliði fór svo saman, en búið er að blanda hópunum og koma þau til með að fara í tveimur blönduðum hópum.

Í gær fóru fyrstu hóparnir aftur í hreyfingu í salnum með Hildi, en hún kemur til með að vera á Tröð á mánudögum, Mýri á þriðjudögum, Seylu á miðvikudögum og Hliði á fimmtudögum í vetur. Deildarstjórar eiga undirbúningstíma á þeim dögum sem Hildur er á þeirra deild líkt og hefur verið síðustu ár. Á þessum undirbúningsdögum eru deildarstjórar með viðtalstíma ef þörf er á.

Leikur að læra fór afstað aftur í morgun með foreldraverkefninu í fataklefum á deildum og voru börnin mjög áhugasöm um verkefnin enda hefur foreldraverkefnið verið í fríi frá því í apríl.

Í vetur fer afstað nýtt þróunarverkefni sem við fengum styrk fyrir, en það er útikennsla á eldri deildum. Hlið og Tröð fara á miðvikudögum til skiptis eða hvort deild fyrir sig tvisvar í mánuði í útikennslu, sem hefst næsta miðvikudag, þann 4. september. Þá er farið út eftir morgunmat, eða upp úr kl. 9 og öll kennsla og verkefnavinna er utandyra fram yfir hádegi. Börnin fá ávexti og hádegismat úti í náttúrunni, annað hvort taka þau með sér nesti eða elda t.d súpu utandyra. Þau ætla að nota nærumhverfið á Álftanesi en einnig fara í lengri ferðir með strætó út fyrir nesið góða.

Danskennsla hefst með Dagnýju danskennara mánudaginn 16. september og verður í 6 vikur, tvo mánudaga og fjóra föstudaga eftir hádegi. Öll börnin fara í danskennslu nema þessi allra yngstu sem sum hver eru enn ekki farin að ganga.

Öll börn á eldri deildum eru komin inn á leikskólann og er aðlögun lokið á öllum deildum nema Seylu. Þar er aðlögun í fullum gangi en þó með rólegra móti þar sem einungis 5 börn eru komin inn enn sem komið er, sem er algjör lúxus fyrir þessi litlu kríli. Við komum til með að aðlaga litlu krílin inn eitthvað fram í haustið þar sem að við tökum þau inn um leið og þau ná tólf mánaða aldrinum. Á Seylu eru foreldrar með börnunum sínum í aðlögun fyrstu dagana og hefur það reynst mjög vel, foreldrar fá með þessu móti mun betri innsýn inn í leikskólastarfið, kynnast öðrum foreldrum og barnið verður öruggara að hafa foreldra sína með sér.

Hundurinn Lubbi er mættur aftur að kenna börnunum íslensku málhljóðin en þau læra eitt nýtt málhljóð í viku og velja svo orð sem tengjast málhljóðinu. Á Hliði og Tröð fá börnin svo að taka með sér hlut að heiman, og fá þá aðstoð frá mömmu og pabba til að finna eitthvað, sem annað hvort byrjar á málhljóðinu eða er með málhljóðinu í og tengja þannig lærdóminn heim.

Svo fer að líða að því að Blær bangsi komi aftur til okkar úr sumarfríinu sínu í Ástralíu en hann fer alltaf í heimsókn þangað yfir sumartímann. Hann mætir til okkar í fyrstu söngstund vetrarins og þá hefjast aftur vinastundir með Blæ og hjálparböngsunum.

Við bjóðum ný börn og nýja foreldra velkomna á Holtakot og hlökkum til að takast á við veturinn.

© 2016 - 2019 Karellen