Karellen
news

Alþjóðlegi bangsadagurinn

27. 10. 2020

Alþjóðlegi bangsadagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Theodore Roosevelt, fyrrum bandaríkjaforseta. Teddy, eins og hann var gjarnan kallaður, var fæddur þann 27. Október 1858, en Teddy er enska orðið yfir bangsa.

Sagan segir að Roosevelt hafi verið mikill skotveiðimaður, en dag einn þegar hann var á bjarnarveiðum aumkaði hann sig yfir litlum bjarnarhúni og sleppti honum lausum í stað þess að skjóta hann. Washington Post birti skopmynd af atvikinu sem vakti mikla athygli um allan heim. Búðareigandi einn í New York borg heillaðist af sögunni og bjó til leikfangabangsa í kjölfarið sem hann kallaði Bangsann hans Teddy. Það er skemmst frá því að segja að leikfangabangsarnir seldust eins og heitar lummur og enn í dag eru bangsar eða teddy-bears, eitt vinsælasta leikfang heims.

Á Holtakoti héldum við daginn hátíðlegan á náttfötunum með honum Blæ bangsa. Börnin fengu að hafa Blæ yfir daginn í leik og starfi í tilefni dagsins. Börnin eiga öll lítinn Blæ-hjálparbangsa sem er notaður í tengslum við vináttuverkefni Barnaheilla sem er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir börn á leikskólaaldri og upp í fyrstu bekkina í grunnskóla. Á yngri deildunum hittust allir inni á Mýri og skelltu í smá náttfatapartý.


Börnin á eldri deildunum voru mjög ánægð með að fá að hafa Blæ í allan dag með í leiknum. Blær fékk að vera með í dúkkuleik, rólegheitum að púsla og pinna og svo fékk hann meira að segja svaka flott húsgögn sem búið var að byggja fyrir hann úr plus-plus kubbum.

Dagurinn var heldur betur vel heppnaður og börnin alsæl með að geta boðið honum Blæ vini sínum með í leik.

© 2016 - 2024 Karellen