Karellen
news

Bleikur dagur á Holtakoti

15. 10. 2021

Bleikur október er dagur sem flest allir eru farnir að þekkja. Föstudagurinn 15. október 2021 er helgaður bleiku slaufunni og eru landsmenn allir hvattir til að skarta bleiku og sýna þannig samstöðu og stuðning með krabbameinsfélaginu.

Á Heilsuleikskólanum Holtakoti voru foreldrar hvattir til að senda börnin í einhverju bleiku í leikskólann og ótrúlega gaman var að sjá hversu mörg börn mættu í einhverju bleiku stolt og ánægð með bros á vör.

Gluggar leikskólans voru skreyttir með bleiku slaufunni sem börnin aðstoðuðu við að mála.

Í vikunni voru börnin á yngri deild búin að föndra bleikar myndir sem héngu uppi í fataklefanum og börnin á eldri deild máluðu með bleikri málningu fallegar myndir.

Í hádeginu var svo boðið upp á bleikt skyr með jarðaberjum og rjóma sem börnin voru heldur betur ánægð með og borðuðu af bestu list. Í kaffitímanum var svo boðið upp á möndluköku með bleiku kremi.

Starfsfólkið tók að sjálfsögðu fullan þátt í þessum degi eins og undanfarin ár og gerðu sér glaðan dag. Allir mættu í einhverju bleiku og svo tóku þau sig saman og styrktu Krabbameinsfélagið með því að skella í hóppöntun á bleika sokknum 2021.

Starfsfólkið tók sig saman og týndu til alls kyns bleika skrautmuni og hluti að heiman og skreyttu kaffistofuna.

Einnig tóku starfsmenn sig saman og buðu upp á hlaðborð í kaffitímum starfsmanna sem samanstóð af allskyns góðgæti t.d. möndluköku, heitum brauðrétt og margt fleira gúmmelaði, allir fóru því saddir og sælir inn í helgina.

© 2016 - 2024 Karellen