Karellen
news

Dagur leikskólans 6. febrúar 2021

08. 02. 2021

6. febrúar er merkis dagur í sögu leikskólanna, en það var einmitt á þessum degi árið 1950 sem frumkvöðlar leikskólakennara stofnuðu fyrstu samtök leikskólakennara. Degi leikskólans er fagnað í leikskólum landsins með ýmsum hætti, en þar sem að dagurinn kom upp á laugardegi í ár héldum við upp á daginn föstudaginn 5. febrúar.


Á Holtakoti prufuðum við í fyrsta sinn fyrir ári síðan að bjóða upp á opið flæði á milli deilda í leikskólanum. Okkur fannst þetta heppnast mjög vel og ákveðið var að bjóða aftur upp á flæði á milli deilda í ár síðasta föstudag.

Börnunum var skipt upp í þrjá hópa á öllum deildum og einn kennari fylgdi hverjum hópi á milli. Á Seylu fengu elstu og reyndustu krílin að fylgja börnunum á Mýri á milli en þau allra yngstu og nýjustu voru inni á Seylu en tóku á móti gestum í heimsókn af hinum deildunum.

Boðið var upp á mismunandi leikefni á hverri deild, t.d. búninga, liti, plús plús kubba, litla fólkið, púða, eldhúsleik og margt margt fleira skemmtilegt.

Í salnum var búið að stilla upp þrautabraut sem fylgdi annarri eldri deildinni. Börnin elska að fara í salinn í hreyfingu og því voru allir til í að skella sér í salinn að leika.

Í ávaxtastund var boðið upp á kleinur og mjólk í tilefni dagsins og fengu börnin að borða á þeirri deild sem þau voru stödd á á þeim tíma sem þeim þótti heldur betur spennandi og skemmtilegt. Gaman er að segja frá því hversu mikla ánægju börnin höfðu af þessari tilbreytingu. Þegar farið var að spjalla við þau að flæðinu loknu höfðu þau orð á því hvað þetta hefði verið skemmtilegt, og sérstaklega að fá jafnvel að vera með systkinum sínum eða frændsystkinum að leika á annarri deild.

© 2016 - 2024 Karellen