news

Dagur leikskólans 6. febrúar

07. 02. 2020

Sjötti febrúar er merkilegur dagur í sögu leikskólans því það var á þessum degi árið 1950 sem frumkvöðlar leikskólakennara stofnuðu fyrstu samtök sín, eða fyrir sléttum 70 árum.

Á Holtakoti hefur þessi dagur verið haldinn hátíðlegur undanfarin ár með mismunandi hætti t.d. með því að heimsækja bæjarstjórann, hafa búningadag, halda vinadag með Krakkakoti, leikfangadag og margt fleira skemmtilegt sem brýtur upp daginn og starfið.

Dagurinn byrjaði eins og alla daga með hefðbundnum morgunmat á deildum. Í ávaxtastund kl. 9.30 var boðið upp á kleinur og mjólk í staðinn fyrir ávexti. Börnunum var svo skipt upp í litla hópa á sinni deild og svo var farið á flakk um leikskólann. Hver hópur stoppaði á hverri deild í ca 15 mínútur.

Á hverri deild var svo boðið upp á eitthvað spennandi leikefni, mismunandi eftir deildum. Á Hliði var boðið upp á eina stöð í salnum og matreiðsludótið, á Tröð var boðið upp á búningaleik, Á Mýri var boðið upp á trélestina og á Seylu var boðið upp á boltaland í púðaherbergi og liti og blöð í aðalrýminu.

Á öllum deildum var einnig frjálsi leikurinn í boði enda ekki endilega sömu leikföngin til á öllum deildum og því er ávallt spennandi að skoða ný leikföng á hinum deildunum.

Morguninn gekk mjög vel og þótti börnunum mjög spennandi að fá að heimsækja hinar deildarnar og fá að leika þar enda alltaf gaman að brjóta upp starfið og gera eitthvað öðruvísi. Litlu krílin á Seylu voru misánægð með þetta fyrirkomulag en tóku samt sem áður þátt og einhver vildu helst bara halda áfram að flakka á milli þegar allt var búið. Í hádegismatinn fengu svo allir hamborgara og heimagerðar franskar með ab-kokteilsósu.


© 2016 - 2020 Karellen