Karellen
news

Fyrsti starfsdagur vetrarins

16. 09. 2020


Miðvikudaginn 16. september var fyrsti starfsdagur vetrarins hjá starfsfólki leik- og grunnskóla í Garðabæ. Dagurinn á Holtakoti hófst kl. 8 með góðum morgunverði og fyrirlestri um skyndihjálp þar sem farið var yfir grunnatriðin í almennri skyndihjálp. Ólafur Ingi Grettisson slökkviliðsmaður og skyndihjálpar gúrú sá um fræðsluna þetta árið líkt og fyrir tveimur árum. Starfsfólkið á Holtakot fær upprifjun í skyndihjálp annað hvert ár.

Þegar Ólafur Ingi hafði farið yfir allt sem skipti máli varðandi skyndihjálpina kom hún Sara Bjargardóttir, talmeinafræðingur hjá Garðabæ til okkar með stuttan fyrirlestur um máltöku ungra barna. Hún var bæði með fræðslu um málþroska og kom með hugmyndir að málörvunarstundum og hvað starfsfólk getur gert til þess að ýta undir og örva málþroska barnanna á meðan þau eru í leikskólanum.

Eftir hádegi var tíminn nýttur í deildarfundi þar sem farið var yfir skipulag komandi vetrar og þau verkefni sem framundan eru ásamt tiltekt og þrifum sem annars gefst ekki færi á að gera í hversdagsleikanum.


© 2016 - 2024 Karellen