Karellen
news

Heilsuleikskólinn Holtakot 14 ára

28. 04. 2020

Í dag er mikill hátíðsdagur á Holtakoti því leikskólinn okkar á afmæli og er orðinn hvorki meira né minna en 14 ára gamall. Leikskólinn var formlega opnaður þann 28. apríl 2006 en fyrstu börnin byrjuðu ekki fyrr en 2. maí sama ár. Hún Ragnhildur leikskólastjóri tók við stöðu leikskólastjóra á Holtakoti 1. febrúar 2006 og fékk þá lyklana afhenta en sat svo heima í stofu að undirbúa starfsemina, panta innbú og leikföng, innrita börn og fleira sem til þarf til að opna heilan leikskóla. Ragga hefur starfað á leikskólanum frá upphafi, enda væri leikskólinn ekki þar sem hann er í dag nema fyrir hennar frábæra starf.

Starf leikskólans hefur tekið einhverjum breytingum á þessum 14 árum. Upphafsstefna leikskólans er Uppeldi til ábyrgðar sem enn er unnið eftir í dag en einnig hafa bæst við Grænfáninn og Heilsustefnan. Starfsfólk og börn hafa tekið að sér mörg þróunarverkefni sem eru orðin hluti af daglegu starfi og er komið inn í veggi leikskólans. Má þar nefna hreyfingu í salnum, Leikur að læra, Klifurvegginn okkar góða, Vináttuverkefnið með Blæ bangsa og núna síðasta vetur útikennsla eldri barnanna.

Í venjulegu árferði er þetta dagur þar sem starfið er brotið upp með einhverjum hætti. Börn og starfsfólk kemur saman í sal leikskólans og syngja afmælissönginn og fleiri skemmtileg leikskólalög og í nónhressingunni hefur svo verið bökuð afmæliskaka. Í dag er einungis helmingur starfsfólks og leikskólabarnanna mætt í leikskólann svo að hátíðarhöldin þurfa að bíða betri tíma, en við gerum okkur svo sannarlega glaðan dag þegar við fáum öll að hittast og höldum þá upp á afmæli leikskólans okkar. Við erum ótrúlega stolt og glöð með leikskólann okkar. Til hamingju með daginn Holtakot.

© 2016 - 2024 Karellen