news

Hreyfingin hefst á ný

15. 01. 2021

Það var heldur betur mikil gleði hjá börnunum á Holtakoti að geta loksins farið aftur í hreyfingu eins og áður í salnum. Á meðan leikskólanum var skipt upp í hólf var hreyfingin sett á bið bæði innan leikskólans og ferðir í Ásgarð og íþróttahúsið.

Nú í vikunni fóru öll börnin í hreyfingu í sal leikskólans þar sem búið var að setja upp þrautabrautir fyrir börnin. Börnin á Tröð fóru í salinn á mánudaginn þar sem þau fóru aðeins í Leikur að læra og enduðu svo í slökun.

Á þriðjudaginn fóru svo börnin á Mýri í salinn og gleðin og einbeitingin sem skein úr andlitum barnanna leyndi sér ekki, enda orðið mjög langt síðan var farið í salinn síðast.

Börnin voru mjög áhugasöm og glöð að taka þátt í öllu sem fram fór í salnum en búið var að setja upp þrautabraut fyrir þau með örlitlu Leikur að læra ívafi við endann á þrautabrautinni.

Á miðvikudaginn stigu svo nýju krílin á Seylu sín fyrstu skref í salnum en þessi sem hafa verið lengst hjá okkur fengu að fara nokkrum sinnum fyrst í haust áður en leikskólinn varð hólfaskiptur.

Flest voru þau afskaplega glöð að fara í salinn að leika á meðan aðrir voru örlítið meira hissa á þessu öllu saman og þurftu aðeins að vega og meta þessar nýju aðstæður. Við erum ofsalega glöð að geta komist aftur í sömu gömlu rútínuna með hreyfingna.

Í vikunni byrjuðu eldri börnin einnig að fara aftur að fara í Ásgarð eftir langa bið og sumir voru að fara í fyrsta skipti í Ásgarð með leikskólanum, enda var mikil spenna í hópnum. Eldri deildarnar skiptast á að fara aðra hvora viku í Ásgarð, en þessa vikuna voru það börnin á Tröð sem fóru og í næstu viku eru það börnin á Hliði.

© 2016 - 2021 Karellen