Karellen
news

Jólaundirbúningur á Holtakoti

25. 11. 2021

Á Holtakoti er ávallt nóg að gera í daglegu starfi. Nóvember er þar engin undantekning en hann er þó helst helgaður undirbúningi jólanna. Börnin og starfsfólkið hafa verið mjög dugleg að undirbúa jólin með alls kyns föndri tengdu jólunum eins og jólasveinum, snjókörlum, jólakettinum og margt fleira. Allt þetta prýðir nú veggi leikskólans fram að jólum.

Á hverju ári baka börnin gerkarla sem skreyttir eru með negulnöglum, rauðum borða og grenibút. Karlarnir hanga svo í fataklefum deildanna fram að jólum og gefa þennan líka dásamlega jólailm í húsið.

Í vikunni var svo smá jólastemning í salnum þegar börnin bökuðu piparkökur. Starfsmenn í eldhúsinu okkar voru búnar að græja piparkökudeig sem allir gátu fengið og börnin bjuggu til kúlur úr deginu sem þau fengu svo að taka með sér heim í lok dags, fallega innpakkað með rauðri slaufu.

Í vikunni fyrir fyrsta sunnudag í aðventu hefur svo alltaf verið opið hús í leikskólanum þar sem foreldrum og öðrum aðstandendum leikskólabarnanna er boðið í morgunkaffi með jólastemningu, heitu súkkulaði og smákökum á opnu húsi, sem því miður, varð að blása af þetta árið vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.

En við látum það nú ekki stoppa okkur, jólin koma þrátt fyrir allt og starfsmenn leikskólans hittust í leikskólanum miðvikudagskvöldið 24. nóvember, til þess að setja leikskólann í jólagallann og skreyta allt hátt og lágt.

Markmiðið er ávallt um hver jól að skapa kósý jólastemningu um allan leikskólann með fallegum jólaljósum, jólaskrauti frá börnunum, skreytingum í glugga og fleira sem gleður augað.

Kvöldið fyrir opna húsið höfum við einnig fagnað og glaðst yfir því þegar starsfólkið okkar hefur unnið í heilan eða hálfan tug hjá okkur en þetta árið bættist enn einn starfsmaður í hópnum okkar sem hefur unnið á Holtakoti í heil 10 ár, en það er hún Elva, aðstoðarleikskólastjóri sem náði þeim áfanga á þessu skólaári og til að fagna því fékk hún fallegt hálsmen að gjöf sem á stendur Trú, von og kærleikur.

Fimmtudaginn 25. nóvember var rauður, jóladagur á Holtakoti. Börnin og starfsfólkið mætti annað hvort í einhverju rauðu eða einhverju jóla, t.d. jólapeysu, jólakjól eða með jólahúfu. Eftir morgunmatinn var boðið upp á smákökur og heitt súkkulaði með rjóma. Dagurinn var yndislegur og við erum sko heldur betur tilbúin í aðventuna og jólin.


© 2016 - 2024 Karellen