Karellen
news

Öskudagsfjör

27. 02. 2020

Öskudagurinn er alltaf skemmtilegur dagur í augum barnanna, en þá má mæta í búning eða náttfötum í leikskólann. Dagurinn hófst eins og venjulega í rólegheitum og með góðum morgunmat. Um 9.30 hittust börnin á Tröð og Hliði í salnum en börnin á Mýri og Seylu hittust inni á Mýri.

Þegar deildarnar hittust var byrjað á því að slá köttinn úr tunnunni en innan í tunnunni leyndust litlir pakkar af rúsínum. Öll börnin fengu tækifæri til þess að slá í tunnuna og hjálpuðust þannig að við að ná góðgætinu.

Þegar allir höfðu gætt sér á rúsínupökkunum sínum var tónlistin sett í botn og bæði börn og starfsfólk skemmtu sér saman í dans og gleði. Börnin á Mýri komu svo og voru með á ballinu í salnum en litlu krílin á Seylu fóru inn á sína deild og fengu sér ávexti í ró og næði.

Á Öskudag hefur skapast sú hefð á Holtakoti að snillingarnir í eldhúsinu búi til regnbogaskyr og regnbogabrauð í hádegismatinn, sem að sögn barnanna er auðvitað miklu betra en venjulegt skyr og brauð enda er þetta svo litríkt og fallegt.

© 2016 - 2024 Karellen