Karellen
news

Síðasti dagurinn hans Denna

31. 05. 2021

Flestir hér á Álftanesinu þekkja hann Denna sem hefur í mörg ár verið m.a. við gangbrautarvörslu og hjálpað bönunum yfir götna á morgnana þegar þau eru á leið í skólann. En Denni hefur ekki bara verið gangbrautavörður, segja má að hann sé svona allt-mögulegt-maður. Hann hefur heldur betur hjálpað okkur á Holtakoti í gegnum tíðina, komið með póstinn til okkar og farið með í Garðabæ, saltað bílaplanið og gönguleiðina inn að leikskóla þegar frystir og komin er hálka á veturna og mokað fyrir okkur snjóinn svo að allir komist heilir inn í leikskólann, hvort sem það eru börnin, foreldrarnir eða starfsfólkið.

Denni hefur verið tíður gestur á Holtakoti í mörg ár þar sem hann gerði það að vana sínum að kíkja í morgunkaffi alla morgna þegar hann var búinn í gangbrautarvörslunni. Þá beið hans ávallt tekex með smjöri, osti og sultu og heitt kakó að ógleymdu spjallinu. Starfsfólkið var ávallt tilbúið til að gefa Denna örlítið af tíma sínum þegar leikskólastjóri var ekki í húsi, en Ragnhildur og Denni áttu alltaf gott spjall yfir morgunbollanum á kaffistofunni, ef leikskólastjóri var ekki við var alltaf einhver sem sá um að halda Denna félagsskap á meðan hann gæddi sér á morgunkaffinu.

Í dag, 31. maí er síðasti dagurinn hans Denna og í framhaldinu ætlar hann að fara að njóta lífsins á annan hátt. Í tilefni dagsins var honum boðið í soðinn fisk með karrýsósu og kartöflum í hádeginu og kaffisopa á eftir. Eftir matinn komu svo börnin á Hliði og Tröð fram í sal til að kveðja Denna og afhenda honum plaggat með kveðju frá öllum á Holtakoti, en bæði börnin og starfsfólkið stimplaði fingrafarið sitt á plaggatið með nafninu sínu undir. Börnin sungu svo fyrir hann áður en hann hélt á braut. Við þökkum Denna kærlega fyrir samfylgdina í gegnum árin og alla hjálpina sem hann hefur veitt okkur í öll þessi ár. Við óskum þér góðs gengis og vonum að þú eigir eftir að njóta lífsins.

© 2016 - 2024 Karellen