Karellen
news

Sumarhátíð leikskólans

14. 05. 2021

Miðvikudaginn 12. Maí var hin árlega sumarhátíð á Holtakoti haldin með sama sniði og í fyrra, s.s. án foreldra og að morgni til, en venjulega höfum við haft hátíðina með foreldrum eftir hádegi. Sólin og blíðan léku heldur betur við okkur um morguninn þrátt fyrir að liti út fyrir að það myndi rigna þá voru veðurguðirnir svo góðir við okkur að halda veðrinu þurru fyrir okkur á meðan á hátíðinni stóð.

Starfsfólk leikskólans var búið að skreyta garðinn okkar með veifum, fánum og fleiru áður en skemmtiatriði dagsins mætti í hús í boði foreldrafélags leikskólans. Þetta árið fengum við í heimsókn Leikhópinn Lottu sem sýndi leikritið um Rauðhettu, úlfinn og grísina þrjá. Sýningin vakti mikla lukku hjá öllum áhorfendum stórum sem smáum.

Að sýningunni lokinni var boðið upp á alls kyns skemmtilegheit í útiveru sem ekki er í boði svona dags daglega, aðeins til að gera okkur glaðan dag á þessum fallega og skemmtilega degi. Í garðinum voru settar upp nokkrar stöðvar með mismunandi viðfangsefnum fyrir börnin. Andlitsmálningin var dregin fram og þau börn sem vildu gátu látið setja á sig andlitsmálningu sem flestum þótti mjög spennandi.

Stöðvarnar þetta árið voru öll með sköpunarkraft barnanna í huga. Krítarnar eru alltaf vinsælar enda börnin algjörir snillingar að rissa upp hvert listaverkið á fætur öðru.

Á öðrum stað í garðinum var búið að hengja upp nokkur blöð og setja út vatnsmálningu og pensla og hvert málverkið á fætur öðru leit dagsins ljós.

Að lokum var svo boðið upp á tónlistarstöð þar sem búið var að koma fyrir fallega skreyttum áldósum og trommukjuðum sem börnin gátu glamrað á að vild og vakti mikla lukku sérstaklega hjá yngri börnunum.

Í hádeginum var svo boðið í pylsupartý inni á deildum þar sem allir gæddu sér á gómsætum pylsum og djús. Dagurinn var mjög vel heppnaður og allir skemmtu sér konunglega og fóru sáttir inn í restina af deginum.

© 2016 - 2024 Karellen