Karellen
news

Sumarhátíð og útskrift elstu barnanna

25. 05. 2020

Miðvikudaginn 20. maí var hin árlega sumarhátíð leikskólans haldin, en þó með aðeins öðru sniði en við eigum að venjast því að þetta árið var sumarhátíðin tvískipt sökum veðurs og var haldin fyrir hádegi þann 20. maí og fyrir hádegi í útiveru föstudaginn 22. maí.

Börnin voru búin að útbúa kórónur og skreyta með táknunum úr uppbyggingastefnunni sem þau báru á höfðinu á miðvikudeginum.

Þær vinkonur Skoppa og Skrítla mættu í heimsókn til okkar í boði foreldrafélagsins við mikinn fögnuð barnanna enda vel þekktar á meðal þeirra. Þær stöllur sýndu lítinn leikþátt, sungu og fengu svo alla með sér í dans svo að börnin fengu heldur betur að taka þátt í sýningunni.


Áður en þær kvöddu voru svo teknar hópmyndir af hverri deild fyrir sig og svo gáfu þær sér smá tíma til þess að spjalla örlítið við börnin. Eftir sýninguna fóru börnin út að leika í rigningunni áður en þau fengu pylsur og djús í hádegismatinn, eins og hefð er fyrir þegar er sumarhátíð á leikskólanum, en í stað þess að sitja úti og borða, þar sem veðurguðirnir voru ekki alveg að vinna með okkur borðuðu allir inni á sinni deild.

Þennan sama dag, miðvikudaginn 20. maí kl. 15 var svo útskriftarathöfn fyrir elstu börnin okkar sem eru að byrja í grunnskóla næsta haust og var foreldrum þeirra boðið að koma og vera viðstödd þessa merku stund í lífi barnanna.

Þau voru öll klædd í sitt fínasta púss, spennt og brosmild, búin að bíða allan daginn eftir útskriftinni sinni. Börnin byrjuðu á því að syngja nokkur lög sem þau voru búin að æfa saman fyrir gestina sína.

Öll börnin fengu svo afhenta rauða rós, útskriftarskjal og ljósmynd af útskriftarhópnum sem deildarstjórarnir á Tröð og Hliði afhentu sínum börnum.

Að athöfninni lokinni var boðið upp á heitt kaffi, djús og kleinur áður en haldið var heim á leið.

Föstudaginn 22. maí lék veðrið heldur betur við okkur með sól og sumaryl og því var ákveðið að skella upp nokkrum stöðvum í útiverunni og klára sumarhátíðina okkar. Boðið var upp á meðal annars sápukúlur og krítar sem vekja alltaf mikla lukku og var góður endapunktur á þessa annars skrítnu útgáfu af sumarhátíðinni okkar.

© 2016 - 2024 Karellen