news

Útskrift elstu barnanna

14. 05. 2021

Þessi glæsilegi hópur eru elstu börnin okkar hér á Holtakoti. Miðvikudaginn 12. maí útskrifuðust þau af fyrsta skólastiginu og við tekur grunnskólinn í haust hjá þeim. Það eru blendnar tilfinningar hjá starfsfólkinu okkar á þessum degi sem eru búin að fylgja þessum börnum frá því að þau byrja í leikskólanum, sum ekki nema rétt ársgömul á hverjum degi síðast liðin 5 ár, enda finnst okkur þau vera börnin okkar ekkert síður en þau eru börn foreldra sinna.

Við vorum svo ótrúlega heppin að geta boðið foreldrum barnanna að koma og vera viðstödd þessa fallegu og hátíðlegu stund í lífi barnanna. Þau byrjuðu á því að syngja nokkur vel valin lög sem þau hafa verið að æfa síðustu daga fyrir gestina sína.

Að söngnum loknum fengu öll börnin afhent útskriftarskjal, ljósmynd og rauða rós frá starfsfólkinu á deildinni þeirra, og að sjálfsögðu var klappað vel fyrir hverju barni og tekin mynd af þeim með herlegheitin.

Eftir athöfnina var öllum boðið upp á kleinur, ávexti og djús eða kaffi inni á deildum barnanna. Á veisluborðinu lá útskriftarbókin okkar góða, en við höfum haft það fyrir hefð að láta útskriftarhópinn teikna eina mynd í bókina sem foreldrarnir geta svo fengið að skoða á útskriftardaginn. Bókina fengum við frá stúlku sem útskrifaðist frá Holtakoti árið 2004, en gaman er að segja frá því að þessi ákveðna stúlka er einmitt að fara að vinna hjá okkur núna í sumar.

Foreldrar útskriftarbarnanna okkar voru svo yndisleg að færa okkur gjöf um morguninn sem innihélt þessar líka flottu kökubita frá Sætum syndum ásamt peningagjöf. Við þökkum kærlega fyrir okkur um leið og við óskum ykkur kæru foreldrar útskriftarbarnanna innilega til hamingju með gullmolana ykkar. Við eigum svo sannarlega eftir að sakna þeirra en óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.

© 2016 - 2021 Karellen