Karellen
news

Útskriftarferð elstu barnanna

07. 05. 2021

Þá er farið að síga á seinni hluta leikskólagöngu elstu barnanna okkar hér á Holtakoti, sem fædd eru árið 2015. Maí er mættur og útskriftin á næsta leiti.

Þriðjudaginn 4. maí lögðu börnin land undir fót og fóru í útskriftarferð ásamt elstu börnunum á Krakkakoti í boði Lions manna líkt og hefð hefur skapast fyrir síðustu árin. Lions menn tóku upp á því fyrir 10 árum síðan að bjóða elstu börnum leikskólanna í útskriftarferð sem þeir sjá um að skipuleggja fyrir okkur með miklum sóma.

Líkt og síðustu ár var ferðinni heitið upp í Borgarfjörðinn þar sem einn af Lions mönnum, hann Jörundur Jökulsson, opnaði sumarbústaðinn sinn og bauð hópnum í heimsókn. Þar fengu allir grillaðar pylsur og íspinna í eftirrétt. Börnin léku sér svo í veðurblíðunni enda skartaði vorið sínu fegursta með sól og blíðu.

Þegar allir höfðu borðað nægju sýna og leikið sér var haldið upp í rútu þar sem leiðin lá að Hvítársíðu í heimsókn á Getabúið að Háafelli til hennar Jóhönnu. Þar var vel tekið á móti hópnum, börnin fengu að hlaupa um og leika sér, spjalla og leika við geiturnar og kiðlingana.

Flestir voru þó spenntastir yfir því að fá að halda á litlu kiðlingunum sem voru ótrúlega gæfir og góðir og þótti það nú ekki mikið mál.

Áður en haldið var af stað heim á leið fengu allir djús, kleinur og ostaslaufur. Börnin voru alsæl og afslöppuð í rútunni á leiðinni heim, einhverjir tóku sér örlitla kríu í rútunni á leiðinni í bæinn.

.

Við þökkum Lions-mönnum kærlega fyrir að hafa enn eitt árið boðið elstu börnunum okkar í útskriftarferð, enda er það alls ekki sjálfgefið að eiga svona góða að.

© 2016 - 2024 Karellen