Karellen
news

Janúar, vasaljós og þorrablót

18. 01. 2022

Nýtt ár mætt og Þorrinn á næsta leiti.

Í janúar hafa börn og starfsfólk verið iðin við hin ýmsu verkefni sem fylgja daglegu starfi. Á eldri deildum var vasaljósadagur í fyrstu vikunni í janúar. Börnin mættu með vasaljós í leikskólann sem þau léku sér með bæði inni í myrkrinu og í útiveru fyrir hádegi.

Leikur að læra er á sínum stað í leikskólastarfinu. Á Hliði eru börnin komin vel á veg í að tengja saman stafi í orð, leggja saman og draga frá. Á Tröð eru börnin að æfa sig í að tengja saman tölur og fjölda og æfa litina m.a.

Yngri börnin á Mýri eru öll orðin mjög örugg og dugleg í leikskólanum enda öll búin að vera hjá okkur frá því í haust og það sama má segja um börnin á Seylu þó að þau séu búin að vera hjá okkur örlítið styttra en á Mýri.

Á báðum deildum eru börnin farin að æfa sig að púsla, perla og pinna auk þess sem þau eru aðeins að fikra sig áfram í hlutverkaleiknum. Í hlutverkaleik notum við t.d. dúkkur og matardót þar sem börnin láta dúkkurnar fara að sofa og gefa þeim að borða.

Á Seylu er að bætast í barnahópinn núna í janúar en aðlögun hófst nú í vikunni og fögnum við því að fá fleiri kríli til okkar.

Framundan er svo Þorrinn sem hefst með þorrablóti leikskólans á sjálfan bóndadaginn, föstudaginn 21. Janúar. Börnin hafa útbúið víkingahjálma/kórónur sem þau hafa málað og skreytt með ullarhnoðrum. Við ætlum að halda upp á daginn með því að syngja saman þorralög, börnin og starfsfólkið mætir í lopapeysum og í hádeginu er boðið upp á hangikjöt, slátur, flatkökur, sviðasultu og súrmatssmakk.

© 2016 - 2024 Karellen