news

Bleikur október á Holtakoti

16. 10. 2020

Bleikur október er hugtak sem flest okkar eru farnin að þekkja og flestir taka þátt í bleika deginum. Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árverknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum.

Í tilefni af bleika deginum föstudaginn 16. október var bleikur dagur á Holtakoti, líkt og síðustu ár. Þá klæða, bæði börn og starfsfólk, sig upp í eitthvað bleikt og sýna þannig samstöðu í baráttunni. Börnin máluðu bleikar myndir og skreyttu með glimmeri í tilefni dagsins sem þau hengdu upp á deildinni. Snillingarnir í eldhúsinu okkar buðu svo börnunum upp á bleikar vöfflur með bleikum glassúr og rjóma í nónhressingunni.

Á þessum skrýtnu covid tímum er skólanum okkar skipt upp í tvö sóttvarnarhólf, eldri deildar og yngri deildar, þar sem bæði börnum og starfsfólki er skipt upp í tvo helminga í sitthvorum hluta leikskólans. Passað er upp á allar sóttvarnir og að hóparnir blandist ekki á milli hólfa. Starfsfólkið hefur síðustu ár slegið saman í bleikt kaffihlaðborð á kaffistofu starfsmanna og skreytt með bleikum skreytingum. En í ár gátu starfsmenn ekki verið allir saman og notið bleikra veitinga á kaffistofunni en þess í stað tóku starfsmennirnir sig saman og allir komu með smá gotterí sem sett var í bleika bréfpoka fyrir hvern og einn starfsmann. Eldhúskonunrar sáu svo um að henda í bleikar ostakökur og auðvitað bleikar vöfflur með bleikum glassúr og rjóma.

En þar sem að við erum nú Heilsuleikskóli þá þurfti auðvitað að hafa smá svona hollt með, þá setti leikskólastjóri sig í samband við þá bræður hjá Myndform sem voru svo frábærir að splæsa á okkur þessum líka fína 100% lífræna bleika Rudolfs-Bio Smoothie drykkjum sem þeir eru nýfarnir að flytja inn og eru alveg meinhollir með blönduðum berjum, ávöxtum og safa. Við þökkum þeim kærlega fyrir okkur.

© 2016 - 2020 Karellen