news

Gönguferð að Bessastöðum

30. 03. 2021


Það er margt hægt að gera í útiveru annað en að leika í leikskólagarðinum okkar góða enda er fólkið okkar á Holtakoti, stórir sem smáir, dugleg að nota náttúruna og nærumhverfið okkar til þess að fara í gönguferðir. Börn og starfsfólk á Hliði skelltu sér í göngu að Bessastöðum í gær, mánudaginn 29. mars með fullan poka af brauði með það að markmiði að gefa svönunum sem syntu um í Bessastaðatjörn örlítinn brauðbita í kuldanum og frostinu þar sem að undanfarið eru margir svanir búnir að spóka sig um á tjörninni. En þegar á hólminn var komið voru einungis tveir svanir sem syntu þar í mestu makindum og höfðu engan áhuga á brauðinu. Sama hvað börnin reyndu að kasta til þeirra þá syntu þeir bara lengra í burtu. Þá var farið að ræða málin, hvað átti að gera við allt þetta brauð, gæti verið að gæsirnar sem eru nú aldeilis út um allt á nesinu okkar góða, vildu smá bita? Þá var haldið af stað í leit af gæsahópi, en þær virtust hafa skroppið eitthvað frá, kanski í páskafrí því aðeins örfáar gæsir fundust á labbi og þær höfðu heldur engan áhuga á brauðinu. Börnunum og starfsfólkinu þótti þetta nú bara nokkuð skondið og héldu aftur í leikskólann með brauðið enn í pokanum sem fer þá bara í kindurnar hennar Röggu í staðinn. En börnin stóðu sig heldur betur vel í gönguferðinni sem endaði á að vera nokkuð löng, þá er nú gott að koma aftur í leikskólann í hádeginu og fá sér steiktan fisk.

© 2016 - 2021 Karellen