Karellen
news

Útileikir og fjöruferð

13. 10. 2020

Veðrið lék við okkur í gær og í dag (12&13. okt.). Börnin og starfsfólkið á Tröð ákvað að nýta veðrið og skelltu sér í göngutúr báða dagana. Í gær, mánudag fóru þau í göngu að leikvellinum við Vesturtún þar sem farið var í stórfiskaleik og Stórt skip, lítið skip.

Börnin fengu auðvitað að leika sér á leikvellinum áður en haldið var afstað aftur sem leið lá í leikskólann. Leiðin var nú samt ekki tekin beina leið í leikskólann heldur tóku þau ágætis hring áður en þau koma til baka og fengu því heldur betur góða hreyfingu í útiverunni og komu kát og svöng til baka í hádegismatinn.

Í morgun var svo ákveðið að fara aftur í gönguferð þar sem að veðrið var svo dásamlegt og héldu í þetta skiptið í fjöruna. Börnin léku sér í fjörunni, hlupu í flæðarmálinu og köstuðu steinum í sjóinn og svo hjálpuðust kennarar og börn að við að skrifa nafn leikskólans okkar, Holtakot í sandinn í fjöruna. Það verður ekki of oft sagt að þessi börn eru algjörir dugnaðarforkar og oftast til í að fara í ævintýraför um nesið okkar góða.

Börn og starfsfólk á Hliði fóru einnig í gönguferð í dag, þriðjudag. Þau tóku góðan hring frá leikskólanum, fram hjá Bjarnastöðum og meðfram fjörunni alla leið inn Vesturtúnið og til baka í leikskólann. Þegar þau komu til baka léku þau sér á leikskólalóðinni þeim megin sem Seyla er áður en þau fóru inn að gæða sér á hádegismatnum.

© 2016 - 2024 Karellen