Karellen

Velkomin á Mýri

Deildarnar á leikskólanum heita eftir staðháttum á Álftanesi og nöfnin þeirra raðast eftir því hvert þær snúa. Deildin okkar heitir Mýri af því að leikskólinn er byggður í mýrinni. Hér áður fyrr bjó maður á mýrinni með endurnar sínar og var hann nefndur Anda Palli.

Á Mýri skólaárið 2023-2024 eru börn fædd 2021 og 2022. Daglegt starf á Mýri gengur að mestu leiti út frá frjálsa leiknum sem er rauði þráðurinn í gegnum leikskólastarfið.

Dagurinn á Mýri byrjar kl. 8 með því að börnin fá sér morgunmat. Eftir morgunmatinn förum við í listakrók og í frjálsann leik til 9.30 en þá setjumst við niður og fáum okkur ávexti. Eftir ávaxtastundina förum við í útiveru og erum úti til að verða 11. Þá förum við inn á snyrtinguna og þvoum okkur um hendur og svo í samverustund þar sem við ýmist syngjum saman, hlustum á sögu eða förum í leiki. Við fáum hádegismat kl. 11.30 og eftir matinn leggjumst við í hvíld á dýnur með koddann okkar og teppið, sumir með snuð og/eða bangsann sinn. Hvíldin er yfirleitt til rúmlega 2 á daginn og þá er rólegur leikur fram að kaffi sem byrjar kl. 14.30. Eftir kaffitímann förum við í sögustund. Eftir sögustundina leikum við okkur annað hvort inni eða úti eftir því sem veður leyfir, þangað til mamma eða pabbi koma að sækja okkur.

Einu sinni í viku förum við í skipulagðar hreyfistundir í salnum í leikskólanum og einu sinni í viku förum við í íþróttahúsið í Álftanesskóla ásamt börnunum á Tröð. Einu sinni í viku í gönguferðir og skoðum okkar nánasta umhverfi, þegar veður leyfir. Einu sinni í viku förum við í söngstund í salnum þar sem allar deildir leikskólans hittast og syngja saman. Síðasta fimmtudaginn í mánuðinum kemur hann Sr. Hans Guðberg svo til okkar, syngur með okkur og spilar á gítarinn sinn.

Foreldrafélagið býður upp á sex vikna dansnámskeið annað hvert ár, sem endar á að síðasti tíminn er tekinn upp á myndband sem er sýnt í aðventukaffinu, og annað hvert ár er boðið upp á sex vikna tónlistarnámskeið sem endar á því að síðasti tíminn er tekinn upp á myndband sem sýnt er í aðventukaffinu.

© 2016 - 2024 Karellen