Karellen

Saga skólans

Leikskólinn Holtakot var formlega opnaður 28. apríl 2006 en hóf starfsemi sína 2. maí sama ár. Til að byrja með voru opnaðar tvær deildir og sú þriðja nokkrum mánuðum síðar. Fjórða deildin var svo opnuð í janúar 2009. Leikskólastjóri er Ragnhildur Skúladóttir en hún hefur verið stjórnandi skólans síðan hann opnaði fyrir utan eins árs fæðingarorlof.

Þann 17. desember 2010 flaggaði leikskólinn Grænfánanum í fyrsta sinn og var verkefnið sem tekið var fyrir flokkun og endurvinnsla. Sækja þarf um Grænfánann annað hvert ár og í desember 2012 flögguðum við Grænfánanum í annað sinn og var verkefnið að þessu sinni Lýðheilsa, í desember 2014 flögguðum við Grænfánanum í þriðja sinn fyrir verkefni um átthaga, í nóvmeber árið 2016 flögguðum við fjórða fánanum fyrir verkefni um orku og vatn og í nóvember 2018 flögguðum við fimmta fánanum fyrir verkefnið Landslag og náttúruvernd.

Í byrjun árs 2011 tókum við þá ákvörðun að gerast Heilsuleikskóli þar sem að áhersla er lögð á hreyfingu, hollt matarræði og listsköpun og höfðum við alla burði til þess að taka það skref. Þann 25. apríl sama ár afhenti Unnur Stefánsdóttir, móðir Heilsustefnunnar, okkur Heilsufánann við hátíðlega athöfn og erum við 18. leikskólinn til þess að verða Heilsuleikskóli. Þess má til gamans geta að við erum eini skólinn sem hefur tekið svo stuttan tíma að fá titilinn Heilsuleikskóli. Í dag ber skólinn nafnið Heilsuleikskólinn Holtakot. Við erum alltaf að vinna að því að bæta við heilsustefnuna okkar og leggjum við mikla áherslu á hreyfingu. Á Holtakoti fara öll börn minnst einu sinni í viku í skipulagðar hreyfistundir í sal leikskólans og einu sinni í viku í gönguferðir. Þrír elstu árgangar leikskólans fara einnig í íþróttasal Álftanesskóla einu sinni í viku og veturinn 2012 - 2013 bættist við sundkennsla í Álftaneslaug einu sinni í viku fyrir þessa tvo árganga. Haustið 2013 var svo ákveðið að setja sundkennslu inn sem hluti af starfinu en einungis fyrir skólahópinn. Í febrúar 2017 urðum við Leikur að læra skóli, en Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum eru kennd bókleg fög í gegnum hreyfingu og leik. Þann 30. nóvember 2018 bættum við enn meira við hreyfingu barnanna og opnuðum formlega klifurvegginn okkar í sal leikskólans.

Í leikskólanum er pláss fyrir 80 - 90 börn en það fer eftir aldri barnanna á hverju ári. Deildirnar eru aldursblandaðar og í ágúst ár hvert færast börn á milli deilda. Leikskólinn er opinn alla virka daga frá 7.30 - 17.00 og býður upp á breytilegan vistunartíma frá 4 klst til 9 klst fyrir börn á aldrinum tólf mánaða til sex ára. Deildarnar eru fjórar en þær heita Seyla, Mýri, Tröð og Hlið.

Deildarnar á leikskólanum heita eftir staðháttum á Álftanesi og nöfnin þeirra raðast eftir því hvert þær snúa. Leikskólinn er byggður á mýri og því heitir næst yngsta deildin okkar Mýri. Á mýrinni bjó maður sem kallaður var Anda Palli, en nafn hans er tilkomið af því að hann hélt endur. Seyla er nefnd eftir svæðinu Seylu sem er fyrir aftan Blikastíginn. Tröð heitir eftir bóndabænum Tröð sem stóð þar sem Hólmatúnið er í dag og Hlið heitir eftir jöðrinni Hlið sem er á rananum út frá Lambhaga. Skansinn sem er í miðju húsi leikskólans er afdrep í Bessastaðanesi.

© 2016 - 2024 Karellen