Karellen

Hvað er leikur að læra?

LEIKUR AÐ LÆRA ER KENNSLUAÐFERÐ ÞAR SEM BÖRNUM Á ALDRINUM 2 - 10 ÁRA ERU KENND ÖLL BÓKLEG FÖG Í GEGNUM LEIKI OG HREYFINGU Á SKEMMTILEGAN, LÍFLEGAN OG ÁRANGURSRÍKAN HÁTT.

Leikur að læra er ekki ein bók, eitt spil eða ein námsgrein. Leikur að læra er kennslustíll. Ef skólinn væri lífið sjálft væri Leikur að læra lífstíll. Kennari sem hefur tileinkað sér kennsluhætti Leikur að læra fer að hugsa námsefnið út frá öðru sjónarhorni – frá sjónarhorni barna og þörf þeirra til að hreyfa sig. Með því að nota kennsluaðferðina Leikur að læra höfum við áhrif á andlega og líkamlega heilsu nemenda okkar til framtíðar. Þau venjast því að standa upp og hreyfa sig reglulega og sjá að það er viðurkennt að við lærum á mismunadi hátt.

Leikur að læra er aðferð sem hentar með öllum kennsluaðferðum, í hvaða fagi sem er. Þínir nemendur munu elska „Leikur að læra" og njóta þess að hreyfa sig og læra samtímis.

Gildi „Leikur að læra".

  • Kennum fag frekar en bók - kennum markmið frekar en blaðsíðu.
  • Leikur að læra er kennarastýrður leikur. Kennarinn er virkur stjórnandi, leiðbeinir og spyr nemendur spurninga.
  • Læra fyrst - leika svo með efniviðinn. Nemendur fara í leik sem hentar þeirra aldri og getu, þegar leikurinn er búinn er tími til að leika með efniviðinn sem notaður var í leiknum.
  • Kennarinn er með skýr vitsmunaleg markmið fyrir kennslustundina. Hvað á að kenna?
  • Í hópleikjum er mikilvægt að vitsmunalegt markmið leiksins sé miðað við þá nemendur sem lengst eru komnir í vitsmunaþroska.

Árið 2014 kom Kristín Einarsdóttir íþróttafræðingur og lagði inn verkefnið Leikur að læra með starfsmönnum Holtakots sem leist svo vel á að ákveðið var að ganga inn í verkefnið. Þetta er ótæmandi hugmyndabanki þar sem verið er að leggja inn t.d. liti, form, tölustafi og bókstafi, læra að leggja saman og draga frá svo eitthvað sé nefnt.

Kristín hitti starfsfólk leikskólans þrisvar sinnum yfir árið til þess að fara yfir áherslurnar, verkefnin og sem handleiðsla fyrir starfsfólkið. Hreyfingin er svo tengd inn í starfið á margan hátt t.d. í fataklefanum, í hreyfistundum í sal leikskólans, Ásgarði og íþróttasal Álftanesskóla, í vettvangsferðum, útiveru og í sundkennslu elstu barnanna.

Ákveðið var að sækja um styrk í þróunarsjóð leikskóla í Garðabæ og fyrir þann styrk voru keypt áhöld í salinn sem nýtist í verkefninu með börnunum ásamt kynningarfundi fyrir foreldra.

Haustið 2016 var haldið kynningarnámskeið fyrir foreldra þar sem farið var yfir helstu þætti verkefnissins og foreldrar fengu að prufa nokkra leiki til að fá góða sýn á um hvað kennsluaðferðin snýst. Í beinu framhaldi hófst samstarf með foreldrum, en foreldrar aðstoða börnin sín með verkefni tvo morgna í viku í fataklefanum þegar þau mæta að morgni. Verkefnin eru af ýmsum toga en innihalda ávallt hreyfingu og ákveðið markmið hvort sem það er að finna stafinn sinn eða ákveðinn lit.

6. febrúar 2017 varð Heilsuleikskólinn Holtakot svo formlega Leikur að læra leikskóli, á Degi leikskólans, en gaman er að segja frá því að Holtakot er fyrsti leikskólinn sem rekinn er af Garðabæ sem titlaður er Leikur að læra skóli.

Hér er hægt að skoða heimasíðu Leikur að læra

© 2016 - 2024 Karellen