Karellen

Brúum bilið er samstarfsverkefni á milli leik- og grunnskóla. Í Garðabæ er unnið með börnum í elsta árgangi leikskólans í samstarfi við grunnskólann. Markmið verkefnisins er að skapa samfellu í námi nemanda á þessum tveimur skólastigum og byggja upp gagnkvæman skilning og þekkingu á starfi kennara á báðum skólastigum, stuðla að vellíðan og öryggi barna þegar þau fara úr leikskóla í grunnskóla og leggja drög að farsælu lestrarnámi barna. Kennarar á báðum skólastigum hittast tvisvar á ári, einu sinni að hausti og aftur í byrjun vorannar þar sem er farið yfir skipulag um hvernig samskiptum skal háttað yfir veturinn með heimsóknum og annað sem tengist verkefninu. Börnin fara í reglulegar heimsóknir yfir í grunnskólann yfir veturinn og fá þannig að kynnast bæði húsnæði og starfsfólki grunnskólans. Börnin fá m.a. að fara í textílmennt, myndmennt og smíði, heimsækja frístund, borða í matsal skólans, er boðið á samverur í sal með yngri bekkjum grunnskólans, fara á bókasafnið og í frímínútur svo fátt eitt sé nefnt. Börnin í 1. bekk koma einnig í heimsókn í gamla leikskólann sinn einu sinni að hausti og einu sinni að vori.© 2016 - 2023 Karellen