Karellen

Upphaf heilsustefnunnar

Unnur Stefánsdóttir leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi hafði frumkvæði að mótun heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Hugmyndafræðin er sú að ef barn fær holla næringu og mikla hreyfingu, þá sprettur fram þörf til að skapa. Urðarhól sem áður hét Skólatröð var vígður sem fyrsti heilsuleikskólinn á Íslandi 1. september 1996. Síðar tóku fleiri leikskólar upp heilsustefnuna og í nóvember 2005 voru stofnuð Samtök Heilsuleikskóla. Fyrsti formaður samtakanna var Unnur Stefánsdóttir. Í júní 2010 eru 14 leikskólar í landinu viðurkenndir Heilsuleikskólar. Kennarar Urðarhóls sömdu og gáfu út Heilsubók barnsins og Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir leikskólakennari hannaði merki heilsuleikskóla. Fáni með heilsumerkinu er sú viðurkenning sem leikskólarnir fá afhentan ásamt viðurkenningarskjali, þegar þeir hafa uppfyllt þau skilyrði sem heilsuleikskóla ber að gera. Merki heilsuleikskólans táknar Heildin samofin þar sem barnið er í miðjunni umvafið áhersluþáttum heilsustefnunnar og leikskólaumhverfinu, sem vinna saman að því að þroska barnið.

Viðmið heilsuleikskóla

Heilsuefling í skólum byrjaði 1994 sem samstarfsverkefni Heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins við skóla á öllum skólastigum. Evrópuverkefni heilsuskóla hófst 1999 og lauk 2002 og voru 4 skólar og Heilsugæslan í Kópavogi þátttakendur, þar á meðal heilsuleikskólinn Skólatröð. Afrakstur Evrópuverkefnisins var viðmið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem fram koma markmið heilsueflingar í skólum og þau grundvallarviðmið sem heilsuskólar eiga að starfa út frá. Á fyrsta aðalfundi Samtaka Heilsuleikskóla árið 2006 var samþykkt að endurskoða viðmið fyrir leikskóla og á aðalfundi árið 2007 í Grindavík voru samþykkt ný viðmið og hafa þeir leikskólar sem hyggjast vinna eftir heilsustefnunni tekið mið að þeim í sinni undirbúningsvinnu. Endurbætt viðmið líta dagsins ljós á 5 ára afmæli Samtaka
Heilsuleikskóla 4. nóvember 2010.

Leikskóli á heilsubraut

Frá því að leikskóli hefur sótt um að verða heilsuleikskóli og þar til hann hefur fengið vígslu fær hann vinnuheitið Leikskóli á heilsubraut. Skólinn getur fengið aukaaðild að Samtökum Heilsuleikskóla þegar hann hefur fengið vinnuheitið Leikskóli á heilsubraut og þar til hann fær vígslu sem heilsuleikskóli. Þetta tímabil getur þó í hæsta lagi varað í þrjú ár. Leikskólinn fær fulla aðild að Samtökum Heilsuleikskóla þegar vígsla hefur farið fram. Leikskólinn þarf að vinna þannig að öllum markmiðunum heilsustefnunnar sé náð. Heildarsýn skólans þarf að miðast við heilsueflingu í hvívetna. Kennarar í heilsuleikskóla verða að gera sér grein fyrir mikilvægi uppeldishlutverksins og tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart heilbrigðum lífsstíl.

Heilsubók barnsins

Heilsubók barnsins er gæðamatskvarði Heilsuleikskóla og stuðlar að því að heilsuleikskólar nái settum markmiðum. Hún hefur að geyma útfærð skráningablöð varðandi þroska og ýmsar upplýsingar um barnið. Skráningin gerir kennurum kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum. Skráð er m.a. heilsufar, hæð og þyngd,næring og sjálfhjálp,lífsleikni, hreyfing og listsköpun. Skráningin skal fara fram tvisvar á ári, haust og vor og foreldrum boðið í viðtal í kjölfarið.

Áhersluþættir

Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð og holl næring, mikil hreyfing, listsköpun og lífsleikni skulu ávallt vera aðalsmerki þeirra.

Næring

Stuðla skal að góðum matarvenjum og hollustu með áherslu á ferskleika og fjölbreytni. Leggja skal áherslu á að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu barnanna og nota sykur og salt í hófi. Vatn skal vera aðgengilegt fyrir börn og starfsmenn. Við samsetningu matseðla skal tekið mið af markmiðum

Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna og fá næringarráðgjafa til að fara yfir matseðla og næringarinnihald.


Hreyfing
Umhverfið þarf að bjóða upp á möguleika bæði til gróf- og fínhreyfinga til að styrkja barnið líkamlega, andlega og félagslega úti og inni. Lögð skal áhersla á skipulagðar hreyfistundir að lágmarki 1 sinni í viku, sem stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan ásamt gleði. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnsins og líkamsvitund, sem leiðir af sér aukna félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.


Listsköpun
Mikilvægt er að vinna með og/eða tengja saman fjölbreytt tjáningarform listsköpunar s.s. myndlist, tónlist og leiklist. Lögð skal áhersla á markvissa listsköpun, þar sem unnið er með einn eða fleiri þætti listsköpunar. Markmiðið er að viðhalda forvitni, sköpunargleði, efla sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman. Lögð skal áhersla á að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið, geri tilraunir og þjálfi upp færni sem leiðir af sér að þau verði viss um eigin getu.

Hér er hægt að nálgast fleiri upplýsingar um heilsustefnuna


© 2016 - 2023 Karellen