Karellen

Velkomin á Hlið


Deildarnar á leikskólanum heita eftir staðháttum á Álftanesi og nöfnin þeirra raðast eftir því hvert þær snúa. Deildin okkar heitir Hlið eftir jörðinni Hlið sem er á rananum út frá Lambhaga.

Á Hliði skólaárið 2023-2024 eru börn fædd árið 2018, 2019 og 2020. Daglegt starf á Hliði gengur mikið út á hinn frjálsa leik sem er stór partur af leikskóladeginum bæði inni og úti.

Dagurinn okkar byrjar á morgunmat sem er milli 8-9. Eftir morgunmat er frjáls tími, rétt fyrir kl. 10 fáum við okkur ávexti og eigum smá samverustund svo fara allir út að leika til rúmlega 11. Þá förum við inn og gerum okkur klár fyrir matinn, setjumst saman í samveru og ræðum saman eða syngjum. Við fáum hádegismat kl. 11:30 og eftir matinn hlustum við á sögu. Síðan er föndrað eða frjáls leikur úti eða inni eða verkefnavinna fram að kaffi sem byrjar 14:30. Eftir kaffitímann erum við í rólegum leik og svo er frjáls leikur úti eða inni (það fer eftir veðri) þangað til farið er heim.

Elstu börnin fara í verkefnavinnu tengd undirbúningi fyrir skólagöngu minnst einu sinni í viku.

Við á Hliði förum í íþróttahúsið einu sinni í viku og þar erum við í skipulagðri hreyfingu og frjálsum leikjum og tvisvar sinnum í mánuði förum við með strætó í fimleikasal Stjörnunnar í Ásgarði í Garðabæ. Við förum einu sinni í viku í salinn í leikskólanum með henni Hildi leikskólakennara í skipulagðar hreyfistundir. Einnig er boðið upp á sundkennslu einu sinni í viku fyrir elsta árgang leikskólans.

Við erum í góðu samstarfi við Álftanesskóla en börnin í elsta árganginum fer í heimsóknir í stærðfræðistofu, tónlistar og myndlistastofu. Álftanesskóli býður svo tilvonandi skólabörnum í heimsókn að vori þar sem kennarar taka á móti börnunum og kynna þeim skólann. Svo koma nemendur úr 1. bekk í heimsókn til okkar að hausti. Í elsta árganginum er unnið með bókina Í talnalandi þar sem unnið er með byrjendakennslu í stærðfræði og stærðfræðihugtök. Einnig leggjum við áherslu á aukna málvitund og málþroska, rímum og leikum okkur með orð og setningar.

Á haustin býður foreldrafélagið börnunum annað hvert ár upp á dansnámskeið í sex vikur sem endar á danssýningu fyrir foreldra og annað hvert ár á móti er boðið upp á sex vikna tónlistarnámskeið sem endar á tónlistartíma með foreldrum.


Þó nokkuð samstarf er á milli leikskólanna á Álftanesi og er samræmd námsáætlun fyrir elsta árganginn þannig að áherslur eru svipaðar í skólastarfinu. Við förum í sameiginlegar vettvangsferðir, hittumst í heimsóknum á leikskólunum og förum saman í útskriftarferð að vori, sem er rútuferð á bóndabæ, grillað, farið í leiki og við skemmtum okkur saman í boði Lions manna á Álftanesi.

Við útskrifum svo skólahópinn okkar að vori og allir fá útskriftarskjal og rós. Að athöfninni lokinni tekur við sumarhátíð Foreldrafélagsins þar sem eru grillaðar pylsur, farið í leiki og fleira skemmtilegt.

© 2016 - 2024 Karellen