Karellen
news

Dagur umhverfis

29. 04. 2024

Fimmtudaginn 25. apríl er Dagur umhverfis, en þann dag var einnig Sumardagurinn fyrsti og leikskólinn því lokaður þann dag. Á Holtakoti héldum við því upp á dag umhverfis föstudaginn 26. apríl.

Börn og starfsfólk leikskólans byrjaði Föstudaginn 26. apríl á því að hittast í sal leikskólans, en við fengum góða gesti í heimsókn þennan daginn. Það voru þeir félagar í Stuðsveitinni Fjör sem mættu galvaskir og sungu með okkur nokkur vel valin lög. Þar sem að sumardagurinn fyrsti lenti á sama degi og Dagur umhverfis, 25. apríl héldum við upp á daginn á föstudeginum með því að fara út og týna upp rusl á lóðinni og í kringum hana.

Eftir stuðið í salnum fóru allir á sína deild og fengu sér smá ávaxtabita áður en farið var út að hreinsa til á leikskólalóðinni og í kringum leikskólann.

Börnin skiptu liði og hreinsuðu upp allt rusl sem þau fundu með aðstoð kennaranna. Börnin á Hliði fóru út fyrir leikskólalóðina og hreinsuðu til meðfram girðingunni fyrir utan leikskólann.

Börnin á Tröð tóku til á stóra útisvæðinu fyrir aftan Tröð og Hlið á meðan yngstu börnin hreinsuðu til á litla svæðinu fyrir framan Mýri.

Börnin á Tröð höfðu tekið forskot á sæluna og hreinsað útisvæðið hjá Tröð og Seylu nokkrum dögum áður.

Dagur umhverfis er einnig afmælisdagur Grænfánans á Íslandi. Dagurinn er tileinkaður Sveini Pálssyni lækni, en þetta er einmitt fæðingardagurinn hans, en hann fæddist árið 1762. Sveinn var þekktur fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur. Hann var mikill frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins, þá sérstaklega jöklunum. Hann er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og því er dagur umhverfis tileinkaður honum.

© 2016 - 2024 Karellen