Karellen
news

Jólafrétt

16. 12. 2022

Það er búið að vera nóg um að vera á aðventunni á Holtakoti. Þann 24. Nóvember var loksins hægt að bjóða gestum og gangandi í heimsókn á opið hús á leikskólanum okkar. Dagana á undan voru börnin búin að baka piparkökur og gerdeigskarla og föndra alls kyns skemmtilegt jólaföndur. Daginn áður var búið að setja leikskólann í sitt fínasta púss með ljósaseríum og jólasrkauti hátt og lágt. Foreldrum og öðrum gestum var svo boðið í morgunkaffi á rauðan dag þar sem þeim var boðið upp á heitt súkkulaði með rjóma, smákökur og heimabakað kryddbrauð með smjöri og osti. Elstu börnin voru með sýningu á helgileiknum og stóðu sig með stakri prýði, en ekki hvað.

Þegar foreldrar og aðrir aðstandendur voru farnir til vinnu fengum við góðan gest í heimsókn. En það var hún Birgitta Haukdal sem kom og las upp úr bókinni sinni um Láru og Ljónsa og söng nokkur lög með börnunum. Í lokinn fengu svo öll börnin Láru og Ljónsa sundpoka að gjöf frá henni.

Á Holtakoti voru 4 starfsmenn sem áttu stórafmæli þetta árið í starfsaldri, en þær Sæunn, Hildur og María hafa unnið á Holtakoti í heil 15 ár og Ína Sigrún í 10 ár.

Í desember eru elstu börnin búin að fara í heimsókn inn í Garðabæ þar sem þau voru viðstödd þegar kveikt var á jólatrénu á Garðatorgi og svo fóru þau líka í heimsókn á Bessastaði þegar kveikt var á trjánum þar. Einnig var þeim boðið í tvær heimsóknir í Álftanesskóla þar sem þau fylgdust með börnum í 2. bekk flytja jólasveinavísurnar og svo fengu þau að fylgjast með uppfærslu hjá 4. bekk á Helgileiknum.

Börnin á tveimur eldri deildunum okkar skelltu sér í gönguferð í blíðskapar veðri um nesið okkar góða og skoðuðu jólahúsið á Álftanesi og það vakti nú heldur betur lukku hjá börnunum, og ekki síður hjá þeim fullorðnu.

Fimmtudaginn 15. Desember var svo jólaball leikskólans. Börnin og starfsfólkið á eldri deildunum hittust í sal leikskólans og dönsuðu saman í kringum jólatréð við undirspil stuðbandsins. Yngri deildarnar hittust inni á Mýri og sungu saman nokkur jólalög. Allir fengu svo fallega jólapakka í lokinn frá foreldrafélagi leikskólans, en öll börnin fengu fallegar bækur.


Fram að jólum verður svo róleg og kósý stemning hjá okkur í leikskólanum. Við óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Jólakveðja frá starfsfólki Holtakots

© 2016 - 2024 Karellen